148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

564. mál
[20:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það getur reynst torvelt að finna út úr bandormsákvæðum sem þessum þegar bera þarf saman ákvæði og ímynda sér hvernig þau muni líta út. Venjulega virkar það svo sem ágætlega. Ef rétt er, sem hæstv. ráðherra segir, að viðkomandi fái enn tvö tækifæri til að koma fyrir nefndina, jafnvel þótt fyrra forfall hafi verið óútskýrt, án þess að það hafi afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi, biðst ég velvirðingar á misskilningnum. En það er samt það sem veldur mér áhyggjum, þetta atriði, hvað varðar þetta einstaka ákvæði.

Ég hefði hreinlega viljað sjá að hagsmunaaðilar notenda þessa kerfis hefðu líka notið samráðs við gerð þessa frumvarps. Þó að það kunni að virðast lítið í sniðum finnst mér mikilvægt að þegar verið er að breyta lögum sem hafa jafn afgerandi áhrif á líf fólks og lög um útlendinga oft hafa séu kallaðir til samráðs einhverjir sem tala fyrir hönd þess hóps. Svo ég árétti það bara hefði mér fundist það eðlilegt. Sömuleiðis árétta ég það, sem ég talaði um, að mér hefði fundist eðlilegt að ráðuneytið hefði skoðað það sérstaklega hvort þetta væri alveg áreiðanlega innan þeirra heimilda sem við höfum samkvæmt okkar alþjóðlegu skuldbindingum.

En svo ég klári kannski mitt síðara andsvar á öðrum nótum, hvað varðar samráð, hef ég tekið sæti í þverpólitískri nefnd um útlendingamál. Mér láðist reyndar að mæta á fyrsta fund þeirrar nefndar en mér skilst að þetta mál hafi ekki verið rætt þar. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði verið eðlilegt að minnast á það þar og mögulega bera það undir þessa nefnd. Ég skil satt best að segja ekki alveg tilgang þeirrar nefndar ef mál sem þessi eru ekki einu sinni borin undir hana.