148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:17]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil árétta að við höfum verið að kalla eftir þessu máli í marga mánuði. Það er ekki að ástæðulausu. Þetta er ótrúlega mikilvægt mál fyrir almenning í landinu, fyrirtækin í landinu, sem þurfa að fá þetta á hreint; fyrir almenning sérstaklega sem þarf á þessum persónuverndarlögum að halda.

Það sem ég er að kvarta yfir og það sem við höfum verið að kvarta yfir er að það þarf að vinna þetta vel. Það er ekki hægt að vinna þetta í glannaskap, ekki á stuttum tíma. Mikið hefur verið talað um eflingu þingsins. Mér finnst svo leiðinlegt að sjá hvernig það loforð er farið út um gluggann.

En við þurfum að vinna þetta vel. Það eru ekki gífuryrði að segja að nálgun ríkisstjórnarinnar hafi verið fyrir neðan allar hellur. Við Píratar stöndum með fyrirtækjum og almenningi í landinu, sem þurfa að fá þetta á hreint, þannig að við ætlum að sitja hjá í afbrigðum. Við viljum ekki stoppa þetta mál, það þarf að klárast sem fyrst. En við sitjum hjá í mótmælaskyni við þessi afleitu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.