148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú tek ég undir með mörgum þingmönnum sem hér hafa talað og furða mig á því hvers vegna gengið er svo langt í sektarmálum. Það er kannski einmitt vegna þess hve seint málið er fram komið að við höfum ekki almennilegan skilning á því hvers vegna þessi leið var valin fram yfir aðrar. Drög að frumvarpinu hafa legið fyrir frá 15. mars. Ég myndi gjarnan vilja heyra meira um þetta frá ráðherra; hún nefndi nokkur dæmi en mér fannst þau ekki alveg skýr.

Í fyrsta lagi vildi ég heyra hvaða breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá drögunum sem birtust í samráðsgáttinni 15. mars og þá sérstaklega gagnvart þeim athugasemdum sem komið hafa fram hjá samráðsaðilum; hversu margar athugasemdir frá samráðsaðilum ekki hefur verið komið til móts við, hvaða atriði það eru. Ég myndi vilja vita hvernig frumvarpið tók breytingum frá því að það var í drögum og þar til það birtist okkur hér.

Ég vil líka nota tækifærið og vekja sérstaka athygli á því sem kemur fram í máli Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrst við erum að ræða um samráð. Á bls. 55 kemur fram að ráðuneytið rengi ekki niðurstöðu kostnaðarmats Sambands íslenskra sveitarfélaga miðað við þær forsendur sem það leggur til grundvallar en ljóst sé að sambandið beiti annarri nálgun en ráðuneytið við mat á kostnaðaráhrifum frumvarpsins.

Nú hefur Samband íslenskra sveitarfélaga lýst yfir miklum áhyggjum af þeim kostnaðarauka sem innleiðing frumvarpsins hafi í för með sér. Hvaða munur er á mati dómsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga? Telur hæstv. ráðherra að það muni hafa áhrif á (Forseti hringir.) hvernig sveitarfélögum tekst að vinna úr þessu mikilvæga frumvarpi?