148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir hans innlegg í umræðuna og þetta andsvar. Ég sagði í upphafi að ég væri hlynntur þessu frumvarpi. Það er margt gott í því, mikilvæg réttarbót á ákveðnu mikilvægu sviði. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það þurfi að setja einhverja fjármuni í þetta. Hvort það þurfi að ráða 22 embættismenn um leið og frumvarpið er samþykkt, ég set smáfyrirvara við það. Ég hefði viljað sjá útreikninga, hvernig menn finna þessar tölur út og hvort þetta þurfi að kosta svona mikla peninga. Það hljóta að vera einhverjar leiðir til að draga úr kostnaði við þetta án þess að það komi niður á eftirlitshlutverkinu.

Enn og aftur stöndum við frammi fyrir því að hér er að koma inn viðamikið og íþyngjandi frumvarp til laga sem á að innleiða, t.d. gagnvart sveitarfélögunum sem hafa ekki svigrúm og ráðrúm til þess að sinna þessu hlutverki nema það komi til einhver breyting á tekjustofnum sveitarfélaganna. Þá er það bara önnur umræða sem við verðum að taka. Það lýtur nefnilega akkúrat að undirbúningi þessa frumvarps. Það hefði átt að ræða þetta í samhengi við frumvarpið, hvernig við tökum á tekjustofnum sveitarfélaga svo þau geti sinnt þessu hlutverki sem ríkisvaldið er að fara hér fram á og ríkisstjórnin vill að verði innleitt með afar skömmum og mjög takmörkuðum undirbúningi.