148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er algerlega rétt að það er ekkert nýtt að ríkisstjórnin gleymi að fjármagna stórkostleg útgjöld eins og NPA var af hálfu sveitarfélaganna og það er eins með þetta mál því að ekki virðist vera gert ráð fyrir fjármagni til sveitarfélaganna. Það er vissulega áhyggjuefni. Kollegi minn gerði mér grein fyrir því milli andsvara að sú breyting hefur orðið á samfélaginu að fólk notar kannski síður bókasafnskort og meira líkamsræktarkort en engu að síður er það eitthvað sem veldur mér miklum áhyggjum, sjálfvirknin á t.d. Costco-kortum og hvaðeina. Það hvar mörkin liggja er svo mikið atriði í þessu öllu, hvort sem það gagnast sveitarfélögum eða öðrum. Í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins segir nokkuð óljóst að lögin og reglugerðin gildi um vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og um vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Ég hef unnið í gagnagrunnsvinnslu síðan ég var tólf ára, með hléum, og ég er ekki viss um að ég skilji nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur.

Það sem ég held að við þurfum að gera og spyr hv. þingmann að er: Getum við lagað þetta orðalag? Getum við verið skýrari um það hvar mörkin liggja? Ég veit ekki nákvæmlega hvernig við getum gert það en þarna er, held ég, ákveðið tækifæri til að vera skýr. Skortur á skýrleika í þessu frumvarpi held ég að geti verið rosalega skaðlegur fyrir stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga.