148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[19:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, algerlega, bæði ef orðalagið væri skýrara og kannski myndi það líka hjálpa manni að fá meira en tólf klukkutíma til að lesa það þannig að maður gæti áttað sig á því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ef hv. þingmaður áttar sig ekki á orðalaginu sem er tengt sérfræðisviði hans er lítil von að ég geri það. Á endanum skiptir þetta hins vegar ofboðslegu máli og ég held að við Íslendingar höfum sýnt allt of mikið gáleysi í meðförum persónuupplýsinga. Ég man fyrir 20 árum þegar ég var að byrja að slá mér upp með konunni minni og heimsótti hana suður til Reykjavíkur. Við ákváðum að vera róleg eitt kvöld og tókum okkur myndbandsspólu úti á leigu. Þegar ég ætla að borga hana segir gaurinn á kassanum: Þú ert búinn að sjá hana. Ég hafði aldrei tekið spólu annars staðar en á Akureyri. Við förum allt of gáleysislega með upplýsingar, kennitölunotkun okkar og annað.

Ég held að þetta sé gott mál og við eigum auðvitað að fara vel yfir það vegna þess að það lýtur að frelsi okkar, friðhelgi og dýrmætustu gæðum. En það gengur ekki að rusla málinu í gegn á nokkrum dögum með einhverjum viðbótum eða öðru sem er í fyrsta lagi greinilega óljóst í salnum hverjar eru og hverjar ekki.

En jú, ég held að það gildi almennt um lagatexta að hann megi færa til hversdagslegra og betra málfars.