148. löggjafarþing — 64. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[20:34]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ágætar spurningar. Það er held ég eðlilegt að allir séu frekar ferskir og nýir þegar kemur að persónuverndarmálum. Þó svo að ég hafi haft mikinn áhuga á þeim málum lengi og fylgst með þróuninni eru heilu hugmyndasviðin innan þeirrar umræðu sem ég er algjörlega ókunnugur. Friðhelgi einstaklinga, persónufriðhelgi, er mjög ný hugmynd í sögunni. Það voru kannski Brandeis og Warren sem bjuggu þetta hugtak til í nútímaskilningi í grein sinni í Harvard Law Review, að mig minnir, árið 1890 eða þar um bil. Við eigum því öll eftir að læra mjög margt.

Ástæðan fyrir því að fyrirtæki þurfa að svara neitandi er sú að þótt þau séu beinlínis búin að undirbúa sig og gera allt sitt til að vera samstæð GDPR þá er þetta ekki orðið að lögum og verður ekki að lögum fyrr en í fyrsta lagi eftir að þingsályktunartillagan verður samþykkt. Það er búið að taka þetta upp í sameiginlegu EES-nefndinni og samþykkja þar og síðan þarf frumvarpið auðvitað að vera komið í gegn. Fram að því er þetta ekki orðið að lögum og alveg sama hversu vel fyrirtækin eru undirbúin verða þau að svara neitandi ef þau eru spurð hvort þetta sé orðið að lögum í hér, vegna þess að annars væru þau hreinlega að ljúga.

Hvert var hitt atriðið? (Gripið fram í: Kærur.) Ég veit satt að segja ekki hvort kærurnar á hendur Google og Facebook, og sennilega margra annarra, séu byggðar á einhverju, en það er náttúrlega vel þekkt og allir ættu að geta áttað sig á því að þetta eru fyrirtæki sem hafa safnað gríðarlegu magni persónuupplýsinga um fólk, alla notendur og jafnvel marga sem nota þetta ekki, svokallaðir skuggaprófílar, (Forseti hringir.) í mörg ár. Það er ekki ólíklegt að eitthvað af þeim gögnum hafi orðið til þess að fólk hafi kært. Ég held að það sé aðallega Max Schrems sem hefur lagt (Forseti hringir.) fram kærur. Hann er frægur fyrir skoðanir sínar.