148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

stytting náms til stúdentsprófs og staða nemenda.

[12:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er kannski til marks um það, miðað við þær upplýsingar sem ráðherra kemur hér með að styttingin hafi eins og í tilfelli Verslunarskólans ekki haft nein marktæk áhrif á stöðu nemenda námslega, og rennir stoðum undir þann ótt að í raun hafi litlu verið fórnað í sjálfu sér í náminu heldur hafi fjögurra ára náminu einfaldlega verið þjappað niður í þrjú, sem þýðir auðvitað að það eykur verulega álag og hefur neikvæðar afleiðingar fyrir nemendur sem er áhyggjuefni. Ég óttast að ríkið hafi hér látið eigin hagsmuni ráða för af því að ávinningur ríkisins er af styttingu á framhaldsskólastiginu en ekki á grunnskólastiginu. Það hafi engan veginn næg áhersla verið lögð á að jafna þessu álagi á allan námstímann. Fyrir var stökkið milli grunnskólastigs og framhaldsskólastigs talsvert. Það virðist hafa aukist verulega við þessa breytingu.

Mig langar að ítreka síðustu spurninguna mína sem ég heyrði ekki ráðherra svara. Því var hafnað á sínum tíma að skólar eins og t.d. Menntaskólinn í Reykjavík gætu boðið nemendum upp á áfram fjögurra ára nám. Er einhver ástæða til þess að vera með slíkan ósveigjanleika (Forseti hringir.) heldur leyfa framhaldsskólunum að bjóða upp á fjölbreyttar lausnir eins og þriggja eða fjögurra ára nám og taka (Forseti hringir.) við nemendum fyrr?