148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

samkomulag um lok þingstarfa.

[12:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég saknaði þess mjög áðan að heyra ekki skýr svör frá forseta Alþingis um hvort hann hygðist beita sér fyrir því að staðið yrði við það samkomulag sem gert var fyrir nokkrum vikum síðan. Það er hins vegar búið að boða núna fund með þingflokksformönnum eftir um fimmtán mínútur þar sem forseti mun væntanlega upplýsa þingmenn eða þingflokksformenn um hvort hann hyggist beita sér fyrir því að staðið verði við það samkomulag. Ég held að því sé rétt, virðulegi forseti, að gera hlé nú þegar á þingfundi þannig að þingflokksformenn geti sest niður með forseta og rætt þá stöðu sem komin er upp.

Það er mjög freistandi að fara enn á ný yfir þau vinnubrögð sem eru viðhöfð af hálfu meiri hlutans á þingi þegar örstutt er eftir af þinginu. Við þingmenn höfum reyndar heyrt undanfarna daga að til standi að lengja þingið. Á það hefur verið drepið á fundum formanna, að mér skilst. En það hefur nú ekki verið, mér vitanlega, rætt við þingflokksformenn hvernig dagskrá og öðru slíku yrði hagað ef af því yrði. Það er því mjög mikilvægt að forseti nái einhverjum tökum hér og hafi þingmenn með sér í liði þegar kemur að því að ljúka þingstörfum.