148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

biðlistar á Vog.

[13:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu. Það eru nokkur atriði sem ég vil reyna að drepa á á þeim örfáu sekúndum sem ég á hér. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. Guðjón Brjánsson um festu og fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi stofnana af þessu tagi, þá sérstaklega þeirra sem reknar eru af grasrótarsamtökum eða öðrum viðlíka samtökum. Ég tek undir mikilvægi þess að fyrirsjáanleiki sé fyrir hendi. En um leið þurfum við að brýna okkur, þ.e. ríkisvaldið, í því hvaða gæði við viljum að þjónustan uppfylli, hvaða árangur við viljum sjá og að það sé í samhengi við og á grundvelli heildarstefnumótunar í viðkomandi málaflokki. Það gildir um áfengis- og vímuvarnir eins og annað.

Ég vil benda hv. þm. Söru Elísu Þórðardóttur á að leggja inn skriflega fyrirspurn varðandi þessar tölulegu upplýsingar. Ég hef þær ekki á hraðbergi en þær eru mikilvægar og þurfa að koma fram.

Ég þakka fyrir hvatningu margra þingmanna hér í þessari umræðu í lokin og tek líka undir þau sjónarmið að hér er auðvitað um að ræða mjög víðtækan vanda. Hann er vaxandi í íslensku samfélagi. Um leið þurfum við að átta okkur á samspili vanda af þessu tagi og geðræns vanda og þar með heilsufarsvanda almennt, en ekki síður tengslum fíkniefnavanda við áföll og fyrri reynslu í lífinu. Allt er þetta samtengt og við þurfum að horfast í augu við það.

Ég vil segja líka alveg að lokum að ég treysti mjög vel þeirri sérfræðiþekkingu sem safnast hefur saman hjá SÁÁ. Ég er mjög ánægð með þau samskipti sem ég hef átt við fagfólk þar, ekki síst þegar við erum að tala um það hvernig við þurfum að koma til móts við unga fíkla vegna þess að það er það sem ber að dyrum hjá okkur á hverjum einasta degi. Við þurfum svo sannarlega að sinna því. Ég vildi að ég hefði lengri tíma til að ræða þessi mál en þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir frumkvæðið.