148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

frumvarp um veiðigjöld.

[15:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég skil ekki hvers vegna mál um brottnám líffæra, svokallað ætlað samþykki, kemur hér inn með forgangi á sama tíma og önnur mikilvæg mál sem eru framar í röðinni fá ekki náð í augum ríkisstjórnarinnar. Það kemur fram í skýrslu heilbrigðisráðherra á 144. löggjafarþingi að til að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum þurfi frekari aðgerðir en ætlað samþykki eitt og sér. Í skýrslunni kemur fram að tryggja þurfi fjármagn til embættis landlæknis, fjármagn til uppbyggingar aukinna verkefna á líffæragjafasviði Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og tryggja þurfi fjármagn til að bæta innra skipulag hvað varðar líffæragjafir og að fræðsla um líffæragjafir verði hluti af námsefni tilvonandi heilbrigðisstarfsmanna, að heilbrigðisstarfsmenn fái skipulagða og reglubundna þjálfun um líffæragjöf, tryggja þurfi eftirfylgni og mælingar á árangri á einstökum þáttum o.s.frv.

Herra forseti. Ég kannast (Forseti hringir.) ekki við að þessi aukni kostnaður sem fylgir málinu hafi verið ræddur í fjárlaganefnd eða í tengslum við fjármálaáætlun. Þetta mál á ekki rétt á neinum forgangi.