148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

lengd þingfundar.

[15:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er verið að óska eftir kvöldfundi til að ræða um lækkun veiðigjalda. Það er verið að biðja um kvöldfund svo við getum rætt um þingmannamál sem á að taka fram fyrir þingmannamál sem er sannarlega í miðri 3. umr., fram fyrir þingmannamál sem er í miðri 1. umr. og fram fyrir öll önnur þingmannamál með lægri málsnúmer. Það gengur ekki. Það er bara ekkert samkomulag um það.

Ég bað hins vegar um orðið vegna þess að ég sá að hæstv. sjávarútvegsráðherra var kominn í salinn en hann er nú stokkinn út aftur. Við höfum velt því fyrir okkur í dag hvers vegna þetta ágreiningsmál fer þessa leið, sem þingmannamál, inn í þingið. Hvers vegna er það ekki hæstv. sjávarútvegsráðherrann sjálfur sem ber málið uppi? Hvers vegna treysti hann sér ekki til að fara með það í gegnum ríkisstjórn og stjórnarþingflokkanna? (Forseti hringir.) Ef hann væri hérna í salnum myndi ég biðja hann að koma og útskýra það fyrir okkur. (Forseti hringir.) Það gæti kannski greitt fyrir hlutunum, ef einhver skýring er sem við getum skilið fyrir þessu ástandi sem er búið að skapa hér í þinginu.