148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[17:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég hafði ekki áttað mig á hversu naumur tími mér er skammtaður til framsögu í þingsályktunartillögum. Ég vil nefna að samþykkis Alþingis í sams konar tilvikum hefur almennt ekki verið leitað fyrr en eftir að ákvörðun hefur verið tekin í sameiginlegu nefndinni. Með því hins vegar að samningur um aðlögun og upptöku hefur staðið yfir í nokkurn tíma og brýnt þykir að ákvörðun um upptöku gerðarinnar geti öðlast gildi sem fyrst eftir að hún er tekin er með þessari tillögu leitað eftir heimild til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar fyrir fram. Það hefur þá þýðingu að ákvörðun nefndarinnar þarf ekki að taka með stjórnskipulegum fyrirvara. Það mun flýta fyrir að ákvörðunin geti öðlast gildi, bæði hér á landi og annars staðar.

Ég vil líka benda á að tekið er tillit til þess að utanríkismálanefnd Alþingis hefur fylgst með framvindu viðræðna og undirbúningi málsins, eins og greina má á fylgiskjali III en þar er vísað til umfjöllunar utanríkismálanefndar frá árinu 2016 og einnig umfjöllunar allsherjar- og menntamálanefndar frá árinu 2016 og umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá því 2018. Það er þannig ekki rétt sem haldið hefur verið fram í umræðum í þingsal um persónuverndarfrumvarpið, að Alþingi sé að fá málið í hendur fyrst núna. Raunar má benda á að utanríkismálanefnd var þegar á árinu 2012 upplýst um tillögu að nýrri löggjöf Evrópusambandsins á þessu sviði á grundvelli 8. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Eftir að ESB hafði samþykkt reglugerðina í apríl 2016 var hún mjög fljótlega þar á eftir send í samráðsferli við utanríkismálanefnd í samræmi við 2. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Ég tel mjög brýnt að reglugerðin verði tekin upp í EES-samninginn við fyrsta tækifæri svo að ekki verði hætta á röskun á flæði persónuupplýsinga milli EFTA-ríkjanna, þar með talið Íslands og Evrópusambandsins. Það er fyrirhugað að ákvörðun sem tillagan tekur til verði tekin fyrir á síðasta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir sumarhlé sem er í byrjun júlí næstkomandi. Þegar ákvörðunin tekur gildi verður Ísland skuldbundið að þjóðarétti til að virða ákvæði hennar.

Ég bendi á að þetta er mál sem hefur verið unnið að um nokkurra ára skeið. Alþingi þekkir mjög vel til undirbúningsins. Utanríkismálanefnd hefur þannig verið reglulega upplýst um framvindu þess. Þá hefur reglugerðin fengið umfjöllun í þremur þingnefndum Alþingis (Forseti hringir.) og þingnefndir settu fram sjónarmið sín í áliti sem er að finna í fylgiskjali III við tillöguna.

Ég tel því að þingið þurfi ekki mikinn tíma til að ræða þetta og ætti í sjálfu sér að geta afgreitt málið á fundi utanríkismálanefndar, á einum fundi.