148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[18:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Satt að segja lýst mér ágætlega á frumvarpið, af því sem ég hef lesið, en engu að síður snúast þær áhyggjur sem ég hafði um daginn og hef enn að einhverju leyti um að eins og við vitum er því miður tilhneigingin í meðferð EES-mála í ráðuneytum til þess að stunda svokallaða gullhúðun þar sem skeytt er inn séríslenskum ákvæðum sem eiga að samlagast duttlungum ráðamanna hverju sinni. Ég myndi auðvitað ekki samþykkja að þetta frumvarp færi í gegn án þess að það væri alveg skýrt hverjir þeir duttlungar eru.

Sem dæmi má nefna 14. gr. frumvarpsins um rafræna vöktun, 15. gr. um vanskilaskrá, 21. gr. um bannskrá Þjóðskrár Íslands. Þetta eru allt saman atriði sem eru algerlega séríslensk í þessari útfærslu. Svo eru það dagsektirnar sem koma fram. Það er útfærsluatriði hvert aldursmark skal vera í tengslum við samþykki barns fyrir þjónustu í upplýsingasamfélaginu. Það er að vísu 13 ára viðmið sem kemur til vegna COPA-löggjafarinnar í Bandaríkjunum frá 1994 frekar en 1995, að ég held. En núna sé ég að ráðherra er farin út úr salnum þannig að það er kannski erfitt að halda áfram að svara henni. (dómsmrh.: Nei.) Þetta er til þess að nefna ekki bara eitt heldur ansi mörg atriði sem ég hef áhyggjur af.

Svo talaði ég ítarlega um það um daginn, sem var kannski aðalpunkturinn minn, að það er töluvert stórt grátt svæði í frumvarpinu varðandi 4. gr., gráa svæðið vegna sjálfvirkrar úrvinnslu sem á ensku kallast, með leyfi forseta, „automated means“. Þetta er atriði sem endaði í reglugerðinni þrátt fyrir mikla pólitík á þeim nótum að erfitt væri að túlka það og á eftir að koma í ljós nákvæmlega hversu víðtæk áhrif það mun hafa í Evrópurétti og á þau fjölmörgu fyrirtæki og einstaklinga sem undir það falla, að ég held um 500 millj. manns. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað flókið.

En í leiðinni langar mig til að spyrja: Gæti ég fengið útlistun á þessum fjórum nálgunum?