148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

beiðni um lyf.

[10:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég var engan veginn að spyrja hana að því hvort hún ætlaði að fara að taka fram fyrir hendurnar á lyfjanefnd heldur var ég að spyrja hvort hún væri tilbúin að beita sér í málinu sem heilbrigðisráðherra. Staðreyndin er sú að það er alveg ljóst, ég hélt að það hefði verið nógu skýrt hér áðan, að hann svarar lyfinu, það er komið í ljós að þessi litli drengur svarar lyfinu. En staðreyndin er sú að það kostar 50 milljónir að gefa honum þetta lyf. Það er of mikið. En það var ekki of mikið að lækka tekjuskattinn um 1% fyrir 14 milljarða, ekki of mikið að lækka bankaskattinn fyrir 7 milljarða og það er ekki of mikið að kalla núna á lækkun veiðigjalda upp á tæpa 3 milljarða. En það er of mikið að hjálpa þessum litla dreng af því að það kostar of mikla peninga.

Hæstv. heilbrigðisráðherra. Ert þú tilbúin að beita stöðu þinni sem heilbrigðisráðherra til að hafa þau áhrif að reyna að hjálpa þessum litla dreng? Sú er spurningin.