148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

aðgengi að stafrænum smiðjum.

236. mál
[16:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Aðrir tilheyrendur. Ég gat ekki látið hjá líða að koma hingað upp til að fagna því að nefndin hafi afgreitt þessa tillögu og sömuleiðis til að taka undir og fagna breytingartillögunum. Að sumu leyti gengur nefndin lengra en við höfðum leyft okkur að vona, en ég skrifaði tillöguna ásamt hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Ég held að við eigum eftir að standa hérna, vonandi, eftir einhver ár og segja: Já, þetta var tímamótatillaga, tímamótaákvörðun, að ákveða að koma á stafrænum smiðjum úti um allt land. Ég er ekki viss um að fólk geri sér almennilega grein fyrir því hversu miklu þær breyta, ekki eingöngu í kennslu heldur líka í aðgengi fyrir frumkvöðla að því að búa til ódýrar, og ekki endilega ódýrar, prótótýpur á hagkvæman og tiltölulega einfaldan hátt.

Þeir sem starfa hjá stafrænum smiðjum segja oft að allt sé hægt að gera í smiðjunni og það eina sem takmarki fólk sé ímyndunaraflið. Það er alltaf hægt að finna leiðir. Það að hafa aðgengi að smiðju, að stað nálægt því þar sem fólk býr og aðgengi að tækjum og tólum þar sem hægt er að gera svona hluti skiptir miklu máli. Við sjáum það á stöðum þar sem slíkar smiðjur eru nú þegar, t.d. í Vestmannaeyjum, á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík. Ég gleymdi nokkrum stöðum af því að ég asnaðist til að fara að telja þá upp (Gripið fram í.) Einmitt, takk. Þetta hefur skipt miklu máli, ekki síst í að vekja áhuga nemenda á að nýta tölvutæknina, læra að nýta sér tölvustýrð tæki og tól til þess að raunverulega skapa eitthvað.

Ég fór í heimsókn í eina af stafrænu smiðjunum — maður er reyndar vanur að kalla þær fab lab, sem er náttúrlega enska heitið og stytting á „fabrication laboratory“ — og þar voru átta ára krakkar að prenta út Minecraft-kallana sína. Ég ræddi líka við ungan mann sem var að læra smíðar og tækniteiknun og var í smá vandræðum með að sjá hlutinn fyrir sér í tölvunni. En þegar hann var búinn að teikna upp hlutinn gat hann prentað hann út og fengið hann í hendur og áttað sig miklu betur á því hvernig formið virkaði. Stafrænu smiðjurnar gera fólki kleift að vinna í fagi sínu á ótrúlega fjölbreyttan og skemmtilegan hátt, að skapa og ekki síst að uppgötva að það hefur kannski áhuga á iðnnámi, sem er eitt af lykilatriðunum með aðgengi að stafrænu smiðjunum, að kveikja áhuga ungs fólks til að mynda á iðnnámi, sem ekki veitir af.

Mig langar að segja ykkur frá því að fyrir nokkrum árum fór ég til Portúgals, til Lissabon, og var þar í rúma viku að heimsækja stafrænu smiðjurnar í borginni. Þær voru tvær á þeim tíma, alla vega nálægt miðborginni. Önnur smiðjan var rekin af raforkufyrirtæki landsins og var á svæði þeirra. Þar var unnið með hönnuðum og almenningi, því að slíkar smiðjur þurfa og eiga að vera opnar almenningi, og starfsmenn fyrirtækisins þjálfaðir í að nýta sér tölvustýrð tæki, hönnun o.fl. Fyrirtækið sýndi samfélagslega ábyrgð með því að bjóða aðgengi að slíkri smiðju auk þess sem það nýtti tækifærið til að þjálfa starfsmenn sína og auka getu þeirra.

Hin smiðjan var rekin af borginni sjálfri og var í einum fátækasta hluta Lissabon. Þangað komu hönnuðir og arkítektar, alls konar fólk, bæði til að vinna með fólkinu í hverfinu og líka til að vinna að eigin verkefnum, því að það vantaði aðgengi að slíkum tækjum, auk þess sem það hélt námskeið o.fl. Það var alveg ótrúlega magnað að koma þarna inn og finna sköpunarmáttinn og gleðina sem felst í því að geta gert og skapað allt sem fólki dettur í hug. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og ég lærði t.d. að nota Arduino, svo ég komi inn á persónulegu hliðarnar á þeirri ferð. Það var einnig skemmtilegt hvernig smiðjurnar nýttu sér styrkleika sína og var t.d. unnið mjög mikið með kork af því að það er efni sem unnið er og framleitt í Portúgal. Ég gæti nefnt mörg fleiri dæmi úr ferðinni sem sýna enn og aftur fram á hversu mikilvægt þetta allt er.

Ég held að ekki sé ástæða til þess að lengja mál mitt frekar. Ég vil enn og aftur koma inn á hversu mikilvæg tillagan er og hversu mikil tækifæri felast í henni. Ég vil líka leggja áherslu á það við þá sem taka við verkefninu, þ.e. að vinna áætlunina og taka það saman, að nálgast það með opnum huga. Ef maður á einhvern tíma að vera svolítið djarfur og horfa til framtíðar er það þegar kemur að stafrænum smiðjum. Þær eru gríðarlega mikilvægur hluti þess að við náum að virkja landið allt inn í fjórðu iðnbyltinguna og hreinlega drögumst ekki aftur úr öðrum löndum. Þó að verkefnið sem hópurinn fær í hendur láti kannski ekki mikið yfir sér er það gríðarlega mikilvægt og stórt. Ég hef trú á og treysti því að þau muni vinna það vel og skila því af sér.