148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég taki aðeins undir með hv. þingmanni þá held ég að þær bækur sem hér er fjallað um séu ekki bara þær sem dottnar eru úr höfundarétti sökum aldurs, heldur líka yngri rit sem höfundaréttarhafar líta einhverra hluta vegna ekki lengur á sem markaðsvöru. Ekki er hægt að skilgreina hvaða bók er markaðsvara út frá tilteknum árafjölda eða tilteknum árafjölda frá andláti höfundar; við getum ekki sett upp reiknireglu um það. Þess vegna þarf þetta samtal að eiga sér stað við útgefendur höfundaréttarhafa og þá sem hafa aðra hagsmuni af þessu máli.

Mjög sennilega mun þessi tillaga leiða til einhvers í ætt við það sem þingmaðurinn nefnir, að þær bækur sem hér heyra undir séu ekki þær nýjustu. Þær bækur sem seljast fyrir hver jól verða væntanlega ekki aðgengilegar stafrænt án endurgjalds eins og við leggjum til hér. Það er, eins og nefnt hefur verið, eitthvað sem þarf að skoða, hvernig hægt væri að koma þeim texta í vélvinnsluna þannig að máltæknin geti byggt á nýjustu tækni. Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður.