148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og hugleiðingar hans í þessum efnum, ánægjulegt að hann er ágætlega að sér í Gamla testamentinu. Ég fagna því. Þar er á ferðinni afskaplega mikilvægt innlegg inn í margt í lífinu eins og við þekkjum, þess vegna fannst mér þetta eiga mjög vel við af því að við erum nú að ræða um þá sem minna mega sín í alþjóðasamfélaginu.

Ég vildi líka koma aðeins inn á það sem ég nefndi sérstaklega áðan, að það er grundvallarforsenda að þau ríki sem við erum að tala um, þau 47 ríki sem þarna eru nefnd, séu sjálfbær. Eins og ég nefndi áðan hefur frumvarpið mjög takmarkaðan tilgang ef innviðirnir í viðkomandi landi eru ekki í stakk búnir til að greiða fyrir þeim útflutningi sem við ætlum síðan að taka á móti með eins jákvæðum hætti og við getum. Þar höfum við þá möguleika að aðstoða þessar þjóðir í landbúnaði o.s.frv. með því að gera það í gegnum … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ég bil biðja menn að gefa þögn og hljóð í hliðarsölum, halda sig einhvers staðar annars staðar ef þeir þurfa að tala saman.)

Það sem ég vildi nefna er að þá höfum við þá leið sem er þróunarsamvinnan. Við getum aðstoðað þessar þjóðir í því að vera sjálfbærar svo að þær geti farið í að flytja út mikilvægar vörur sem geta þá orðið liður í því að byggja upp sjálfbærni viðkomandi þjóða. Þannig (Forseti hringir.) skiptir það verulegu máli að við getum þá tekið á móti þessum útflutningi með sem hagkvæmustum hætti fyrir viðkomandi þjóðir.