148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna. Hún er afar mikilvæg og það er dýrmætt fyrir þingmenn að fá að viðra sjónarmið sín, hver gagnvart öðrum, á tiltölulega hlutlausan hátt eins og gerist hér í ræðustól. Það eru náttúrlega mörg sjónarmið uppi. Það eru margir fletir á þessari umræðu. Hún er ekki einföld. Eitt af því sem við náttúrlega sem hér erum vitum öll er að lífeyriskerfið okkar er í rauninni bundið allt á klafa verðtryggingarinnar. Í því felst ákveðin trygging að vísu fyrir þá sem þiggja lífeyri, en á móti kemur að kerfið allt er einhvern veginn sokkið í það fen sem verðtryggingin hefur að þessu leyti skapað. Þessu þarf að bregðast við og þetta er hluti af því sem þarf væntanlega að skoða þegar verðtryggingin verður felld niður.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom inn á það áðan að þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir með verðtryggingu verður ekki breytt í einu vetfangi nema með samningum, þ.e. það þarf að semja um það við þá sem hafa tekið lánin og þá sem hafa veitt þau. Það er ekki einfalt, en það er náttúrlega eins og hvert annað verkefni og þarf að ganga í það.

Það má í rauninni segja að verðtryggingin eins og hún er núna sé að sumu leyti ákveðin afurð af séreignarstefnunni eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson ýjaði að hér áðan. Verðtryggð lán hafa verið eina leið þeirra sem hafa tiltölulega lágar tekjur til þess að komast inn á húsnæðismarkaðinn af einhverju öryggi. Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða í þessu samhengi (Forseti hringir.) og það er ekki hægt að taka þessa umræðu nema skoða alla þessa fleti.