148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna, kröftuga ræðu, og ábendingar. Það er vel, við eigum að rýna allt með gagnrýnum augum og ekki síst þá áætlun sem liggur fyrir og við erum að fjalla um.

Það er tvennt sem ég ætla að koma að í andsvari við hv. þingmann, í fyrsta lagi grunndæmið, byrja á að ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að ganga mjög fast eftir því að fá grunndæmið. Eins og ég fór yfir í ræðu minni nýttum við það hér og hv. þingmaður gerði það jafnframt í áliti sínu, áliti 1. minni hluta. Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um varðandi þetta dæmi, fyrir utan kannski almennt um það, er að í þeim sameiginlegu ábendingum fjárlaganefndarinnar göngum við eftir því að þetta verði hluti af ríkisfjármálaáætlun í framtíðinni. Spurningin er því þessi: Hvernig sér hann fyrir sér að fjárlaganefnd nýti sér grunndæmið umfram það sem við gerðum í þessari vinnu?

Svo vil ég árétta, af því að stór hluti ræðu hv. þingmanns var gagnvart kostnaðarmati og ábatagreiningu einstakra markmiða, og það tengist því sem ég ætla að spyrja í seinna andsvari um stefnumótunarþáttinn og framkvæmd fjárlaga og bara árétta að alltaf er gert ráð fyrir því, bæði í fjárlagafrumvarpi og fjármálaáætlun, (Forseti hringir.) framkvæmd þeirra aðgerða sem tilgreind eru, að þær rúmist innan fjárveitinga til viðkomandi ábyrgðaraðila. Það var að skilja á ræðu hv. þingmanns að sú ábyrgð væri eitthvað óljós, en sú ábyrgð er alltaf ljós.