148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir það með hv. þingmanni, að þetta kom ítrekað fram í umsögnum og hjá þeim aðilum sem komu fyrir nefndina. Ég hef einmitt ekki orðið var við að á þessu hafi verið tekið með einhverjum aðgerðum í áætluninni. Það er alveg ljóst að þessi áætlun byggir á hávaxtaskeiði sem er án nokkurra fordæma. Ef við lítum bara aðeins á umsögn Viðskiptaráðs Íslands sem ég tel að eigi mjög vel við, og fleiri komu reyndar mjög inn á það, að okkur birtist aukinn slaki í ríkisfjármálunum og mikil bjartsýni og aukin umsvif hins opinbera.

Eins og ég sagði í máli mínu áðan segir í greinargerðinni að raungengi sem mælir hlutfallslegt verð á Íslandi miðað við útlönd náði einnig hámarki á miðju árinu 2017 og er enn mjög hátt í sögulegu samhengi. Þegar gengið hefur áður náð viðlíka styrk hefur það undantekningarlaust gefið eftir í kjölfarið. Þrátt fyrir þetta er engu að síður gert ráð fyrir hækkandi raungengi á næstu árum. Það gengur augljóslega gegn varfærnishugtakinu í lögunum um opinber fjármál. Það er því mjög einkennilegt að meiri hlutinn skuli ekki hafa, því að hann áttar sig á þessu greinilega, brugðist við með einhverjum sértækum aðgerðum og að áætlunin skuli byggð á þetta mikilli bjartsýni. Það er svolítil ráðgáta að mínu áliti.