148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu. Margt áhugavert kom fram í máli hans og ég get heils hugar tekið undir margt af því, sér í lagi í skattaumfjöllun hans. Ég er einmitt sjálfur mjög hrifinn af þeirri tekjuskattshugmynd sem hann reifaði, hún er raunar sprottin frá samráðsvettvangi og Viðreisn hafði ásamt fleiri flokkum hana á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar. Vonandi getur því náðst góð þverpólitísk samstaða hér í salnum.

Það sem ég hefði hins vegar haft mestar áhyggjur af er það sem snýr að áhrifum ríkisfjármála á hagstjórn, sérstaklega á peningastefnu. Það kemur ágætlega fram í nýútkominni skýrslu að það skipti kannski ekki öllu máli hvaða leikkerfi sé spilað eftir svo lengi sem menn virði leikreglurnar.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður deili með mér þeim áhyggjum að þessi mikla útgjaldaþensla og samspil hennar við áform um skattalækkanir — sem ég er í prinsippinu ekki á móti en eru auðvitað varasamar samhliða svo mikilli útgjaldaaukningu — grafi einfaldlega undan (Forseti hringir.) peningastefnunni sem við störfum eftir, valdi hærra vaxtastigi en ella og þá hærra gengi krónunnar en ella eins og Seðlabanki hefur ítrekað bent á; en hann einmitt talið sig þurfa að halda vaxtastiginu svona háu vegna minnkandi aðhalds ríkisfjármálanna.