148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:59]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson séum á svipuðum slóðum og höfum svipaðar áhyggjur þegar kemur að þróun ríkisútgjalda. Þau hafa verið gríðarlega mikil. Það er boðað að vöxturinn haldi áfram, raunvöxturinn. Á móti kemur, og við megum ekki gleyma því, að ekki er verið að auka útgjöld ríkisins eða ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu. Það skiptir máli.

Hitt er svo annað að ef ekki er farið eftir leikreglunum skiptir engu máli hverjar leikreglurnar eru. Við getum sett alls konar leikreglur hér en ef við fylgjum þeim ekki þá skipta þær engu máli. Það er boðskapur sem starfshópur um nýja stefnu í (Forseti hringir.) peningamálum er að benda okkur á og ég hygg að við þurfum (Forseti hringir.) að ræða hann mjög ítarlega í þessum þingsal og a.m.k. í sameiginlegri nefnd okkar.