148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að ræða þá skýrslu mjög vandlega hér í þingsal, ekki held ég að veiti af. Það var annað í máli þingmannsins sem ég myndi líka geta tekið heils hugar undir, það er einmitt þessi umræða um að útgjöld séu ekki markmið í sjálfu sér, útgjaldaaukning ekki markmið í sjálfu sér, heldur hvað við fáum fyrir fjármagnið og hvernig skilvirkni ríkisrekstrarins er fyrir okkur. Þar hef ég töluverðar áhyggjur af skilvirkni heilbrigðiskerfisins. Í stefnu núverandi ríkisstjórnar finnst mér til dæmis mjög sótt að hinu einkarekna — og mikilvægt að gera skýran greinarmun á einkavæddu og einkareknu heilbrigðiskerfi — sem hefur sýnt sig vera mjög skilvirkt á köflum, en vissulega má gera mjög miklar kröfur þar líka. En þar sýnist mér að við séum einmitt að lenda í þessari gildru; að markmiðin séu stórkostleg útgjaldaaukning án þess að við sjáum glögglega hvað við fáum fyrir það fjármagn; að sótt sé að einkarekna hluta kerfisins án þess að til grundvallar sé lagt neitt mat á það hvort fjárhagslegur ávinningur sé af því fyrir ríkissjóð, hvort verið sé að fá bætta (Forseti hringir.) þjónustu eða á hagkvæmara verði hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi en hinu einkarekna.