148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[20:02]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek svo sannarlega undir tillögur um að taka málið aftur inn í nefnd og ræða það betur. Ég hef alltaf verið mjög efins um þetta frumvarp eins og það er núna. Nú er samningur í gildi. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talar um heildarhagsmuni þjóðarinnar. Tekur ekki sá samningur sem er í gildi og á að taka inn á fjórum árum, tillit til heildarhagsmuna þjóðarinnar?

Hv. þingmaður hefur trú á íslenskum markaði. Ég hef það líka, en við skulum gefa honum tíma til að aðlagast. Það er lágmarkskurteisi.

Innflutningur á ostum er að fjórfaldast á þessu ári. Ef frumvarpið gengur í gegn fer magnið, eins og lagt var upp með í upphafi, upp í 230 tonn. Það ellefufaldast. Það eru 93% af framleiðslu hér á landi. Þegar við förum að fjalla um málið kemur í ljós öllum að óvörum að þetta eru ekki bara sérostar. Það eru Gouda-ostar sem verið er að opna fyrir, sem eru 80% af framleiðslu okkar í dag. Mér finnst mjög mikilvægt að markaðurinn fái að aðlaga sig. Verðlagsnefnd búvara ákveður heildsöluverð búvara á brauðosti hérlendis. Það getur verið nokkuð snúið fyrir íslenskan markað og afurðastöðvar að bregðast við slíkri hröðun á svo aukinni samkeppni að öllu óbreyttu. Það er bara einhliða ákvörðun að hraða þessu. Ég er mjög hlynnt því að málið fari aftur til nefndar og að við veltum þessum hlutum aðeins betur fyrir okkur.

Við erum að tala um virðingu við neytendur. Ég vil minna á að bændur eru náttúrlega líka íslenskir neytendur og hluti af markaðnum, þannig að mér finnst það svolítið sérstakt þegar alltaf er verið að taka þá út fyrir sviga eins og þeir séu einhverjar geimverur.

Ég styð sannarlega að málið komi inn til okkar aftur og við veltum þessu aðeins betur fyrir okkur og leyfum samningnum að malla. Fjögur ár eru örskotsstund, ekki langur tími, en það getur verið það svigrúm sem íslenskur markaður, íslenskir bændur og framleiðendur þurfa til þess að bregðast við. Ég efast ekkert um að þeir hafi vilja til þess því að það er ekki verið að banna neitt hérna. Mér finnst það svolítið vera kynnt þannig að við séum að stöðva einhvern innflutning, en það er bara alls ekki svo. Ég held að við getum alveg tekið öðruvísi á þessum málum án þess að allt fari í bál og brand eða það stoppi eitthvað.

En ég styð það sannarlega að málið fari aftur til nefndar og vona að okkur takist að finna betri lausn á þessu máli. Ég vona bara að það verði niðurstaðan í þessu máli.