148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um verkefni í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

Þetta eru góðar og virðingarverðar tillögur á þessum mikilvægu tímamótum og er ánægjulegt að sjá hversu góð samstaða hefur náðst um það sem er vel við hæfi, eins og komið hefur fram í umræðunum, á þessum tímamótum; að Alþingi sameinist um verkefni á borð við þau sem við ræðum hér.

Þingsályktunartillagan felur m.a. í sér að komið verði á fót öflugum barnamenningarsjóði sem hafi það hlutverk að fjármagna og styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Jafnframt verði lögð sérstök áhersla á verkefni er stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni og við sjáum það, sem er áhyggjuefni, að kosningaþátttaka ungs fólks hefur farið minnkandi í samfélaginu. Þegar við minnumst þessa mikilvægasta áfanga í sjálfstæðisbaráttu landsins verðum við að hafa í huga hvernig við getum eflt þátttöku barna og ungs fólks í lýðræðislegu samfélagi. Hornsteinn sjálfstæðis okkar og fullveldis er hin lýðræðislega stjórnskipan og sú stjórnskipan nær ekki tilgangi sínum að fullu nema með virkri og öflugri þátttöku allra þjóðfélagshópa.

Sem fyrr segir sýna rannsóknir að kosningaþátttaka ungs fólks hefur farið minnkandi. Það er umhugsunarverð og varhugaverð þróun. Það er mikilvægt að ungt fólk taki virkan þátt í mótun íslensks samfélags með þátttöku í stjórnmálum og með því að nýta sér kosningarrétt sinn. En það er ekki síður mikilvægt að ungt fólk upplifi að á sjónarmið þess sé hlustað, að því sé treyst til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi, að orð þess hafi vigt og að við treystum því m.a. til aukinnar þátttöku á sviði sveitarstjórna eins og Alþingi ræddi á liðnum vetri; mikilvægt mál en náði því miður ekki fram að ganga.

Við þingmenn Viðreisnar fögnum því sérstaklega þessu framtaki og vonum að stofnun barnamenningarsjóðs verði einmitt til að ná fram tilgangi sínum, að efla enn frekar lýðræðislega þátttöku ungs fólks.

Þá er það fagnaðarefni að hér sé samstaða um byggingu nýs hafrannsóknaskips. Fáar þjóðir ef nokkrar eiga jafn mikið undir sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Sjávarútvegur er og hefur verið undirstaða að efnahagslegum framgangi íslenskrar þjóðar á öllum fullveldistímanum. Á þessum tímamótum stöndum við einmitt frammi fyrir nýjum og varhugaverðum áskorunum í þeim miklu breytingum sem fylgja loftslagsbreytingum í heiminum og þeim áhrifum sem þær hafa á sjávarstrauma og lífríki hafsins. Því er mikilvægt að þingið sameinist um að stórefla hafrannsóknir til að bregðast við þeirri vá.

Að síðustu þætti mér gott ef þingið kæmi sér saman um annað mikilvægt verkefni á komandi vetri sem er einmitt að efla vegsemd og virðingu þingsins sjálfs. Það er áhyggjuefni að á þessum tímamótum búum við enn við þá stöðu að traust almennings til Alþingis er í mikilli lægð. Við þurfum öll, allur þingheimur, að taka höndum saman um það hvernig efla má og endurreisa traust til þingsins og hvernig við sjálf getum með störfum okkar stuðlað að slíku trausti.

Við fögnum þeim tímamótum sem felast í 100 ára afmæli fullveldisins. Við þingmenn Viðreisnar fögnum sérstaklega og styðjum þær tillögur sem hér eru lagðar fram.