149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður um ferðaþjónustuna. Mér finnst mikilvægt að muna það með ferðaþjónustuna, ef við erum að hugsa um fólkið, að við ættum kannski einmitt að reyna að beita okkur fyrir því að menntun í ferðaþjónustunni verði aukin frekar en að skattleggja hana. Ég held að staðan eins og hún er núna hefði hugsanlega komið fyrr ef við hefðum farið í það. Ég tek hins vegar alveg undir það að við höfum oft rætt það hér í þessum þingsal að við þurfum að finna leiðir eins og t.d. hér hafa verið nefndar, með komugjöld eða annað slíkt, við getum kannski náð í aukna fjármuni þar, en landið okkar er mjög dýrt. Það hefur dregið úr komum til landsins eins og við þekkjum. Það er spurning hvort við viljum bara ríka ferðamenn ef við erum að tala um að greinin geti borið aukna skatta. Við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvers konar ferðafólk við viljum sjá í landinu.

Það er gömul saga og ný að hv. þingmaður var mjög svartsýnn og bölsýnn bæði á síðasta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar og núna. Hann fór held ég með rangar tölur varðandi Landspítalann þegar hann talaði um aukninguna. Það kemur fram á bls. 84 í litla heftinu, hún er í kringum 5 milljarðar, ef þingmaðurinn kíkir á það. Ég vona að við fáum umsögn um þetta frumvarp frá sjúkrahúsinu og öðrum sem hér eru undir hvað varðar þörfina á fjármagni. Ég trúi heldur ekki öðru en að hv. þingmaður sé mér sammála um það að ef fram heldur sem horfir og við náum að standa við það sem við leggjum til í ríkisfjármálaáætluninni þá erum við að auka samneyslu um 34%, 99 milljarða, á þessu tímabili sem ég held að hljóti að teljast vera ansi gott, þótt við getum alltaf gert betur.