149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hér fer fram í dag. Ég vil líka óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með starfið eins og ég hef nú gert áður og óska henni góðs gengis, en sný mér þá að fyrstu spurningunni sem mig langar að spyrja hana.

Við fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019–2023 er eftirfarandi bókað:

„Fordæmalaus fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun ferðamanna um land allt kallar á skoðun á því hvort fjárveitingar geti í ríkari mæli færst á milli svæða. Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að gera endurskoðun fjárveitinga gagnsærri en verið hefur og upplýsa um þá þætti sem ráða úthlutun fjármuna. Þar þarf sérstaklega að horfa til íbúaþróunar á Suðurnesjum þar sem heilbrigðisframlög á íbúa eru lægri en annars staðar á landinu.“

Ég spyr því ráðherrann: Hvar má sjá þess stað í fjárlögum 2019 að mætt sé þeirri sjálfsögðu kröfu Suðurnesjamanna að þeir sitji við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að útdeilingum á fé til heilbrigðisþjónustu? Á liðnum árum hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 24%, 5.100 manns, og eru nú um 26.500. Á sama tíma, á síðustu tveimur árum, hefur íbúum Reykjanesbæjar eins fjölgað um 15%, 2.400 manns, sem samsvarar Sveitarfélaginu Hornafirði. Á þeim tíma hafa framlög til heilbrigðisþjónustu þar eins og víðast annars staðar hækkað um 1% og síðan er gerð 0,5% hagræðingarkrafa á þessar stofnanir.

Ég spyr ráðherrann: Hvar sjáum við þess stað í núverandi fjárlagafrumvarpi að bókun ríkisstjórnarinnar við fimm ára fjármálaáætlun standist?