149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:15]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Við erum á sömu nótum og kemur ekki á óvart. Ég hefði að vísu viljað ganga töluvert lengra en ég var að tala um. Ég hefði viljað sjá í þessari aðgerðaáætlun sem boðuð er hjá ríkisstjórninni, 6,8 milljarðar, að þegar kemur að kolefnisbindingunni og breyttri landnotkun ætti þetta að vera hluti af nýjum búvörusamningum. Við þurfum að taka miklu lengri umræðu um það.

Ég ætla aðeins að fá að ræða um sjávarútveginn vegna þess að hv. þingmenn hafa verið að rukka hæstv. ráðherra um skýr svör er varða auðlindagjaldið í sjávarútvegi. Það er eins og sumum hér inni þyki óeðlilegt að auðlindagjöldin sveiflist upp og niður eftir afkomu. Ég á erfitt með að skilja af hverju erfitt er að skilja að það skuli vera svo. En allt í lagi.

Ég tek hins vegar eftir því að í fjárlagafrumvarpi um markmið og leiðir kemur fram að það eigi að meta heildstætt samkeppnisstöðu Íslands í sjávarútvegi og fiskeldi í samanburði við nágrannalönd og gera úrbætur þar um. Eitt af því sem hefur vissulega áhrif á samkeppnisstöðu sjávarútvegsins er auðvitað auðlindagjöldin. Það er ekkert land, eftir því sem ég kemst næst, nema örfáar fisktegundir í Færeyjum, sem er bundið auðlindagjaldi, sjávarútvegurinn er meira eða minna ríkisstyrktur. Ég spyr: Hvenær sér hæstv. ráðherra einhverja niðurstöðu í þessu heildstæða mati?

Síðan er spurningin um það hvenær við eigum von á því að á borð okkar komi tillögur eða hugmyndir að auðlindagjaldi er varða fiskeldi.