149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:11]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegi forseti. Á málasviði ráðherra eru mikilvæg samfélagsverkefni, húsnæðismálin, barnaverndarmál og ýmsir þættir atvinnumarkaðar svo fátt eitt sé nefnt. Það sem leitar mjög á landsmenn þessa dagana eru málefni barna og ungmenna og vanlíðan þeirra. Það fellur einn ungur einstaklingur af völdum fíkniefna í viku hverri, ekki bara fellur heldur deyr. Ef þetta væri inflúensufaraldur eða eldgos væri hér uppi fótur og fit. Hvað með viðbrögð við því, virðulegi ráðherra? Er ráðherra hlynntur þeim úrræðum sem þekkt eru, og voru raunar rædd hér fyrr í dag, og hafa reynst vel í löndunum í kringum okkur og skaðaminnkandi verkefni sem Frú Ragnheiður hefur talað mjög fyrir?

Alfa og omega alls í því sambandi eru auðvitað forvarnaúrræði og heilsueflandi verkefni. Við Íslendingar erum vön skammtímahugsun, erum til í að henda okkur í átaksverkefni á flestum sviðum.

Við þurfum að temja okkur langtímasýn í velferðarkerfinu. Mér finnst enn skorta á það í frumvarpinu. Ég spyr því ráðherra hvort þetta séu ekki atriði sem þurfi að leggja miklu meiri áherslu á.

Því verður ekki breytt að börn og ungmenni á Íslandi eru í miklum vanda akkúrat núna og úrræði þola enga bið. Í vor kynnti ráðherra að unnið væri að því að koma upp úrræði þar sem einstaklingar sem hafa verið lengi í kerfinu fengju aðstoð við að aðlagast fyrra lífi, jafnvel ætti að opna það eftir sex vikur. Hvernig er staðan í því verkefni?

Rekstrarframlög til málefnasviðsins örorka og málefni fatlaðs fólks eru áætluð 294 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu og hækka um 47 millj. kr. að sögn vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, sem er mikilvægt verkefni sem við samþykktum í vor. Telur ráðherra að þetta sé í samræmi við það samkomulag sem gert var? Finnst ráðherra það ásættanlegt í ljósi (Forseti hringir.) þess hversu mikil bylting það er í lífsgæðum fatlaðra og þeirra miklu væntinga sem uppi eru?