149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:33]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar og til þess að fyrirbyggja allan misskilning er sá þingmaður sem ég átti andsvar við hér áður, minn ágæti vinur, Þorsteinn Sæmundsson, líka ágætur vinur þess sem hér stendur en ekki eingöngu hv. þm. Óla Björns Kárasonar.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um endurskoðun á tekjuskattskerfi og bótakerfi er það alveg rétt sem hv. þingmaður vitnar til, að það er í gangi vinna milli velferðarráðuneytisins eða félagsmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og að því kemur líka forsætisráðuneytið, við að endurskoða bóta- og tekjuskattskerfið með það að markmiði að það nýtist betur þeim sem hafa lægri tekjur og lægri millitekjur.

Mín sýn á það er að við þurfum talsvert róttækar breytingar á þessu kerfi og við þurfum að létta byrði af þeim sem hafa lægri tekjurnar og við eigum að horfa til þess mögulega að sækja auknar tekjur til þeirra sem hafa hærri tekjur.

Í þessari vinnu hefur verið gott samstarf við verkalýðshreyfinguna enda var kveðið á um það við endurskoðun kjarasamninga fyrri hluta þessa árs, þá var óskað sérstaklega eftir því að verkalýðshreyfingin fengi aðkomu að vinnunni. Ég held að það sé jákvætt vegna þess, ég segi það fyrir mitt leyti, að þar er sú sýn líka ríkjandi að bæta þurfi stöðu þeirra sem hafa lægri tekjur og lægri millitekjur.

Hvenær þeirri endurskoðun lýkur nákvæmlega er ekki gott að segja á þessari stundu, en ég á von á því að það gerist öðru hvorum megin við næstu áramót og hugsanlega í tengslum við kjarasamninga sem margir hverjir eru lausir, eða eiginlega allir, á almennum vinnumarkaði í lok þessa árs, á opinberum markaði í byrjun næsta árs.