149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta innlegg. Það er alveg hárrétt, sem þingmaðurinn nefnir, að í skógrækt eigum við allgóðar tölur þegar kemur að kolefnisbókhaldinu. Ef við horfum 20 ár eða jafnvel lengra aftur í tímann var skógræktin á þeim stað að þessar tölur voru ekki til. En unnið hefur verið mjög markvisst í því á síðustu árum að bæta úr því.

Varðandi Landgræðsluna eru líka til traustar tölur því að Landgræðslan hefur verið að vinna í þessum málum mjög lengi. Það er helst þegar kemur að losun frá votlendi og áhrifum þess að moka aftur ofan í skurði þar sem þekkingin er minni. Hún er hins vegar á þeim stað að það er ekkert sem bendir til annars en að hún sé mjög lík því sem gerist á svipuðum breiddargráðum, í svipuðum vistkerfum eða svipuðum gerðum af votlendi. Þess vegna er alveg ljóst að aðgerðir sem hafa með endurheimt votlendis að gera eru að skila okkur árangri í því að koma í veg fyrir losun; það er ekki deilt um það.

Hins vegar er fjármagn sett með þessari áætlun einmitt í það að treysta þennan vísindalega grunn. Er það mjög vel. Það er gert bæði fyrir skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.

Hvað varðar skiptingu fjármagnsins lét ég þess getið hér áðan að ég hef falið Landgræðslunni og Skógræktinni að koma með áætlun í öllum þessum geirum til mín með tillögum að því hvernig þetta muni líta út. Þá getum við betur áttað okkur á því hverju mismunandi aðgerðir geta skilað.

Líkt og ég sagði í svari til hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur erum við að líta til fjölmargra markmiða með þessari kolefnisbindingu sem einnig taka til líffræðilegs fjölbreytileika og þess að stöðva landeyðingu.