149. löggjafarþing — 5. fundur,  17. sept. 2018.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

6. mál
[17:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef verulegar áhyggjur af hugmyndum hv. þingmanns um réttarríkið. Þetta mál snýst um það hvernig Alþingi fór með vald sitt. Ekki hvort Geir H. Haarde hafi verið sakfelldur fyrir stöðumælasekt eða eitthvert formbrot heldur hvernig Alþingi fór með vald sitt. Að hafa ákæruvald er mikilvægt. Vandamálið sem við glímum við hér er, og þegar við skoðum dóm Landsdóms þá sjáum við og það er svo augljóst fyrir okkur öllum, að þarna réð allt annað en að fara vel með vald sitt. Þarna fór fram pólitískt uppgjör. Spurningin er bara sú: Finnst þingmönnum ekki ástæða til þess, ef við höfum nú farið illa með vald okkar á þinginu, að við biðjumst afsökunar á því? Hvað er að því? Að við biðjumst bara afsökunar á að hafa farið illa með vald okkar?

Í mínum huga, og ég skrifaði um það þá þegar á þeim tíma þegar ég starfaði sem lögmaður, þegar ég horfði á þessa ákæru, varð mér um og ó. Og ekki starfaði ég í Sjálfstæðisflokknum þá. Ég hafði verulegar áhyggjur af því, hv. þingmaður, hvernig Alþingi ætlaði að fara með vald sitt. Og ég hugsaði einmitt til byltingarinnar í Frakklandi og ég hugsaði um þá hugmyndafræði sem tók hér við völdum 2009 og þar sem tekið er við völdum annars staðar, þá byrjar alltaf sama uppgjörið. Taka pólitísku andstæðingana frá með einum eða öðrum hætti og breyta stjórnarskránni. Það er alltaf það sama.

Þetta er hættuleg þróun. Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef það er þannig að þingmanninum finnst þessi meðferð í lagi eins og hún var, þá segir hann það bara, en ef honum finnst hún ekki hafa verið góð og illa farið með valdið, hvort honum finnist þá ekki rétt að menn biðjist afsökunar á því.