149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[15:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru þessar ástæður fyrir því að ég tel líklegra en ekki að við munum sjá meiri verðbólgu á næstunni. Það er bara í samræmi við spár umsagnaraðila sem senda umsagnir um þingmál inn til Alþingis og getur varla þótt mjög róttæk skoðun. Ég vona að ég fái nú ekki aftur gömlu gusuna um að maður sé að tala niður hagkerfið. Það er óþolandi orðræða sem tíðkaðist hér fyrir hrun, sællar minningar.

Það sem ég er að velta fyrir mér sérstaklega í þessu er að ef þetta snýst við núna, þegar laun hafa verið að hækka hraðar en verðlag, og verðlag fer að hækka hraðar en laun, verða það tekjuhærri hóparnir sem hafa hagnast á því fyrirkomulagi sem við höfum haft, þessu misræmi milli þess hvaða vísitala ákvarðar persónuafsláttinn annars vegar og fjárhæðarmörk milli neðra og efra þreps tekjuskattsstofns hins vegar. Síðan lögum við þessa bjögun eins og hún er kölluð og það sem ég er að velta fyrir mér er: Ætti þetta ekki frekar að vera launavísitala fyrir hvort tveggja persónuafsláttinn og um fjárhæðarmörkin? Þetta eru jú laun sem við erum að tala um, þetta eru hvort tveggja fyrirbæri, þrepaskiptur tekjuskattur og persónuafslátturinn, þetta eru tekjujöfnunartæki.

Mér finnst á allan hátt eðlilegra ef yfir höfuð á að vísitölubinda svona lagað, sem er önnur spurning, að það ætti að vera launavísitala, að öllu jöfnu, án tillits til þess hvernig við teljum gengið þróast á næstunni eða hafa þróast seinasta árið. Er ekki eðlilegra að við notum launavísitöluna í þessum tækjum en neysluverðsvísitöluna almennt, óháð því hvernig við teljum hagkerfið vera að þróast?