149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

mannanöfn.

9. mál
[16:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni hefur tekist það ætlunarverk sitt að vera íhaldsmaðurinn á svæðinu. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður færði engin rök, svo ég heyrði, fyrir því að hafa þetta eins og þetta er nema eineltisvinkilinn sem hefur margsinnis verið útskýrt hvernig sé meðhöndlaður. Hann er meðhöndlaður með barnalögum. Hv. þingmaður nefndi hins vegar t.d. að hann vildi geta keypt áfengi af einkaaðilum, nokkuð sem ég styð og hef stutt í þessari pontu. Þau rök eru þá farin frá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður vill meina að ég vilji ekki að hann hlusti á neitt nema RÚV. Mér er alveg sama hvað hv. þingmaður hlustar á þannig að þau rök eru farin.

Hv. þingmaður sagði að það mætti ekki vera kyn og það ættu alltaf að vera kynjahlutföll en samt væru engin kyn og enginn vissi neitt. Ókei, hvað ef það mega vera kyn? Hvað ef það þurfa ekki að vera jöfn kynjahlutföll? Hvað ef einhver veit eitthvað? Hvað ef við færðum bara burt allar þessar kvartanir hv. þingmanns gagnvart þeim hv. þingmönnum sem hér eru inni (Forseti hringir.) gagnvart frjálslyndi í öðrum málum, fellur þá ekki ræða hv. þingmanns svolítið um sjálfa sig?