149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

heræfingar NATO.

[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður er að fara þegar hann er að tala um að umfangið hafi aukist eitthvað. Ég held að það sé sjálfsagt að fara yfir það. Þegar kemur að þessari heræfingu hefur línan verið alveg frá fyrsta degi að þetta sé opið og gagnsætt, sérstaklega fyrir hv. utanríkismálanefnd. Gert er ráð fyrir að æfð verði lending landgönguliðs í Sandvík sunnan við Hafnir á Reykjanesskaga, 300–400 manna lið kemur í land á loftpúðaskipum og prömmum. Samtímis flytja þyrlur um 120 manna lið á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli.

Ég veit ekki betur en að þetta hafi verið upplýst alveg frá því það var kynnt fyrst og kannast ekki við það, virðulegur forseti, að það hafi orðið einhverjar stórvægilegar breytingar á þeim áætlunum sem uppi voru í byrjun. Að sjálfsögðu hefur þetta verið kynnt í hæstv. ríkisstjórn og í hv. utanríkismálanefnd eins og hv. þingmaður þekkir mætavel. Sömuleiðis hefur þetta verið kynnt fyrir almenningi. Þannig viljum við hafa það.

Ef það er eitthvað sem menn vilja ræða betur í hv. utanríkismálanefnd sem tengist þessu gerum við það að sjálfsögðu. En mér skilst að það hafi verið upplýsandi og góður fundur í nefndinni fyrir nokkrum dögum enda er þetta lagt upp með þeim hætti að bæði þing og þjóð séu meðvituð um hvað er í gangi og af hverju. Við erum virkir þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu, höfum verið það frá stofnun þess, og höfum tekið þátt í æfingum sem þessum af augljósum ástæðum. En það er sjálfsagt að ræða þetta, hvort sem það er í hv. utanríkismálanefnd eða annars staðar.