149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[13:14]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Markmiðið með skýrslunni er að fjalla um þá þætti sem hafa áhrif á traust í stjórnmálum og stjórnsýslu og hvernig markvisst væri hægt að auka það.

Þegar ég sagði ömmu minni, 94 ára gamalli, á sínum tíma að ég væri að setjast á Alþingi Íslendinga fussaði hún og spurði hvort það væri nú eitthvað merkilegt. Ég þurfti að færa rök fyrir að þannig væri það, já. Og hvers vegna segi ég þetta? Við megum ekki líta svo á að nú þegar þessi skýrsla er komin sé traustið sömuleiðis komið og tiltrú fólks á okkur stjórnmálamönnum og þeirri stjórnsýslu sem við iðkum í höfn.

Þessari góðu skýrslu má ekki stinga undir stól heldur ætti hún að vera okkur leiðarljós sem lifandi skjal og ég hvet forsætisráðherra til dáða í þeim efnum.

Við, stjórnmálafólk þessa lands, kjörnir fulltrúar fólksins, þurfum að leiða hugann að því hvað valdi vantrausti. Spyrjum okkur sjálf: Hver er ásýnd þjóðarinnar af okkur? Hver er ímyndin sem birtist á þessum skjá? Þar berum við öll ábyrgð, bæði meiri og minni hluti. Allt sem við gerum og segjum skapar ímynd og býr til þennan stuðul á traust. Valdið er í okkar höndum og ábyrgðin sömuleiðis. Stjórnmál snúast nefnilega um völd og starf stjórnmálamannsins snýst um að beita völdum.

Það er auðveldara að vera í minni hluta en meiri hluta. Það er afskaplega gaman að koma hingað og sjá fólk skipta um hlutverk. Sjálfur hvet ég alla til að prófa að vera bæði í minni og meiri hluta. Það er mjög hollt í stjórnmálum. Sjálfur sit ég einmitt í minni hluta í sveitarstjórn. Við erum þess vegna í ólíkum hlutverkum, hvorum hópnum sem við tilheyrum, bæði fyrir og eftir kosningar. Öll erum við stjórnmálafólk og báðir hópar bera hér ákaflega mikla ábyrgð. Við setjum okkur siðareglur en ræðum þær ekki þess á milli. Siðareglur eru einungis leiðarljósið, okkar er svo að skapa stjórnmálamenninguna. Við erum ekki í stjórnmálum til að verða öll sammála, heldur til að komast að niðurstöðu eftir samtal, samtal okkar á milli, samtal við hagsmunasamtök, samtöl við þrýstihópa, einstaklinga, fræðasamfélagið o.s.frv.

Þá reynir einmitt á samskiptahæfileika, að geta starfað af hugsjón með öðrum sem eru manni ósammála.

Sömuleiðis ætla ég að vitna í merkan mann, Pál Skúlason, með leyfi forseta.

„Hlutverk stjórnmálanna er í fyrsta lagi að tryggja að opinber umræða fari fram um sameiginleg mál borgaranna, í öðru lagi að nota skynsamlegar leiðir til að taka ákvarðanir og í þriðja lagi að skapa samfélag þar sem fjölbreytt mannlíf fær dafnað og sátt ríkir um grundvallaratriði.“

Það er nefnilega svo auðvelt að nota frasastjórnmál og hljóta skammtímavinsældir. Frekar einmitt að hafa skynsemi og heilindi að leiðarljósi. Stjórnmálin eru það kerfi sem við höfum komið okkur upp sem leið til að halda utan um sameiginleg mál og hagsmuni, að ferli séu öllum ljós og koma í veg fyrir spillingu, vinaræði og frændhygli. Almannahagsmuni umfram sérhagsmuni.

Við stjórnmálamenn erum nefnilega í þjónustuhlutverki. Samfélagið þarf að komast út úr hlýðnimenningunni. Almenningur sjálfur verður að ígrunda, gagnrýna og spyrja og leita sér að upplýsingum, jafnvel þó að þær sé ekki að finna. Allt sem við stjórnmálamenn gerum á að vera uppi á borðum almennings. Það getur verið óþægilegt og jafnvel vont en leiðir engu að síður til betri niðurstöðu fyrir okkur öll.

Að lokum, kæru þingmenn: Segjum meira frá því sem felst í starfi okkar, að vera á fundi hér, ráðstefnu þar, vinnustaðaheimsókn, hitta fólk á elliheimili eða nemendur í skólum — og gerum það af virðingu fyrir starfinu okkar og við fólkið sem treystir á okkur stjórnmálamenn til að láta gott af okkur leiða í þágu samfélagsins.