149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[14:13]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikill meiri hluti landsmanna vill að ríkið verji meira fé til heilbrigðismála og að reksturinn sé á vegum ríkisins. Samkvæmt þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar frá því á síðasta ári vilja 92% landsmanna að hið opinbera verji meira fé til heilbrigðisþjónustu og hefur þeim sem hafa þá skoðun fjölgað um rúm 10% síðastliðinn áratug.

Ég leyfi mér að ætla að landsmenn séu ekki að kalla eftir fjáraustri, að við förum óvarlega með sameiginlega fjármuni okkar, heldur má ætla að þeir vilji efla heilbrigðisþjónustu landsmanna. Á sama tíma vilja þeir að fjármagn til heilbrigðisþjónustu sé vel nýtt.

Þjónustan á að vera aðgengileg óháð efnahag og búsetu og kröfur um gæði, hagkvæmni og öryggi eiga að vera skýrar. Það er lykilatriði.

En það var fleira í þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar því að 86% landsmanna vilja einnig að rekstur sjúkrahúsa sé fyrst og fremst á hendi ríkisins og hefur hlutfallið hækkað um 5% á áratug. Þá vilja jafnframt 79% að hið opinbera reki heilsugæslur og hefur sá hópur einnig stækkað töluvert síðasta áratug. Á sama tíma hefur landsmönnum fækkað sem styðja einkarekstur læknastofa.

Ég fagna umræðunni um þetta vegna þess að það er svolítið óljóst hvaða skilning fólk leggur í það hvað opinbert heilbrigðiskerfi er. Fólk leggur mismunandi skilning í það hvað opinbert heilbrigðiskerfi er og hvað það felur í sér. Reyndar vekur tímasetning þessa frumvarps eftirtekt. Það er svo að í heilbrigðisráðuneytinu á sér stað vinna núna við heildstæða stefnumótun í heilbrigðiskerfinu til framtíðar, sem er afskaplega mikilvæg vinna. Ef marka má orð hæstv. heilbrigðisráðherra er ætlunin að sú mikla stefnumótun skili sér inn í þingið eftir áramót.

Þá spyr maður sig: Er þetta frumvarp lagt fram vegna spennu í ríkisstjórninni? Það sjá allir sem horfa á að þessi framlögn er beinlínis til höfuðs samstarfsflokki í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokknum, sem er hjartanlega og innilega ósammála þeim um þau mál.

Ég velti ýmsu fyrir mér í tengslum við þetta frumvarp. Einkaaðilar veita margs konar heilbrigðisþjónustu í dag. Öll meðferðarþjónusta við ávana- og fíkniefnaneytendur á Íslandi, ef undan er skilin deild 32A á Landspítalanum sem er fíknigeðdeild, er í höndum einkaaðila. Hvað með tannlækna? Hvað með geðlækna? Hvað um sálfræðinga? Hvað með þá lækna sem nú þegar eru að störfum? Hvað um þá vinnu sem þegar er í gangi? Ef niðurstaðan af stefnumótunarvinnu heilbrigðisráðuneytisins, þar sem Vinstri grænir hafa forystu, verður á annan veg en hv. þingmenn leggja til í frumvarpinu, hvað ætla þeir þá að gera við það?

Aftur segi ég að ég fagna þeirri heildarstefnumótun sem nú á sér stað. En á að kanna hvað þeir aðilar eru að gera og hvort einhver hagnaður sé greiddur út? Á að banna þá sem þegar starfa í dag? Samfylkingin styður öflugt og opinbert heilbrigðiskerfi og vill umfram allt að það verði eflt eins og nauðsynlegt er. Ég tel reyndar fullvíst að það verði loksins eflt eins og nauðsynlegt er og eflt þannig að sjúklingar fái nauðsynlega þjónustu, eflt þannig að allir standi jafnir og þurfi ekki að engjast á biðlistum með umtalsverðum kostnaði fyrir samfélagið. Og þá verður þörfin fyrir utanaðkomandi aðstoð sjálfstæðra lækna og sérfræðinga minni.

Ég hlakka til að sjá niðurstöður þeirrar vinnu sem er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu og ég held líka að umræðan sé okkur afskaplega mikilvæg um hvernig við viljum sjá þessa grunnþjónustu samfélagsins.