149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

fjárveitingar til SÁÁ.

[15:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef verið í góðum samskiptum við SÁÁ og mun verða hér eftir sem hingað til. Hv. þingmaður vísar til þess þegar SÁÁ sögðu sig frá þessum verkefnum, þ.e. að sinna börnum og ungmennum yngri en 18 ára. Það kom ekki fram í þeirri tilkynningu, sem var tilkynning með litlum fyrirvara til heilbrigðisráðuneytisins, að hún væri byggð á orðum þeirrar sem hér stendur. Það eru nýjar upplýsingar fyrir mig ef það er svo.

Ég átta mig ekki á því ef hv. þingmaður er orðinn sérstakur málflytjandi í þeim efnum, en ég tek mark á SÁÁ og lít svo á að það sé ábyrg stofnun, að Vogur sé það. Þegar ég fæ greinargerð um að stofnunin telji sig ekki hafa yfir því afli að ráða sem þarf til að geta sinnt þessum hópi svo fullnægjandi sé, í samræmi við þá umræðu sem verið hefur í samfélaginu, hlýt ég að taka mark á þeirri greinargerð frá SÁÁ. Hins vegar eru þeir aðilar í samtali við okkur um úrræði fyrir þennan hóp.