149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

rafrettur og rafrettuvökvi.

[15:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Heilbrigðisráðherra er mjög vinsæl í dag. Þann 1. september sl. birtist á vef Stjórnarráðsins reglugerð um tilkynningar til Neytendastofu um markaðssetningu rafrettna og áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda nikótín. Reglugerðin er sett með stoð í nýjum lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir þær sem við samþykktum í vor. Lögin munu taka gildi 1. mars 2019, en í þeim er gert ráð fyrir að tilkynningar til Neytendastofu vegna innflutnings á nýjum vörum skuli berast eigi síðar en sex mánuðum áður en markaðssetningin er fyrirhuguð.

Nú hefur komið til umræðu hvernig gjaldtöku skuli háttað. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að fyrir hverja tilkynningu skuli greiða 75.000 kr. Það þýðir að fyrir hverja vöru sem endursöluaðili hyggst flytja inn þarf hann að senda sérstaka tilkynningu og greiða þetta gjald fyrir.

Þessi upphæð virðist vera til þess fallin að gera þeim sem flytja inn þessa vökva nokkurn veginn ómögulegt að halda viðskiptum áfram, a.m.k. miðað við þann fjölda vara sem verslanir eru með í dag. Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda í dag kemur fram að félagið hafi sent bréf til velferðarráðuneytisins þar sem því er lýst að aukakostnaður fyrir venjulega sérverslun með rafrettur gæti numið 60–100 millj. kr. Félagið lítur svo á að um sé að ræða tilraun til að kæfa atvinnugreinina í fæðingu og bendir einnig á að rafrettur hafi átt þátt í að fækka tóbaksreykingamönnum, sem er væntanlega jákvætt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Fór fram einhver greiningarvinna um áhrifin sem þessi reglugerð gæti haft á verslanir og t.d. á framboð rafrettna, þá aðallega rafrettuvökva? Nú hafa erlendar rannsóknir sýnt fram á að bragðefni í nikótínvökvum og fjölbreytni þeirra eigi stóran þátt í því að fólk skiptir úr tóbaksreykingum yfir í rafrettur, sem hlýtur að teljast eftirsóknarvert þar sem nokkuð ljóst er að um skaðaminnkunarúrræði er að ræða.

Þetta er fyrsta spurningin.