149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

óháð, fagleg, staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

14. mál
[16:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Mál þetta skýrir sig að miklu leyti sjálft og hefur hv. framsögumaður farið yfir það allítarlega. Mig langar þó að segja nokkur orð til að leggja áherslu á hversu mikilvægt er að fara í þessa greiningu og þessa vinnu.

Við fórum í gegnum umræðu um þetta mál fyrir ekki svo mörgum mánuðum síðan. Þá sá Alþingi sér ekki fært að samþykkja að fara í þá vegferð sem þarna var lagt til. Síðan hefur hins vegar komið í ljós að margar þær varúðarraddir sem hafðar voru uppi eru á rökum reistar. Sjúklingar og aðstandendur, starfsfólk, búa við hávaða og læti, að sjálfsögðu frá framkvæmdunum í Þingholtunum, við spítalann við Hringbraut.

Aðstandandi hljóðritaði hávaðann þegar verið var að vinna við framkvæmdir við Hringbrautina. Það var í fjölmiðlunum þar sem fólk gat hlustað á þessi læti. Svona verður þetta áfram, svona verður þetta næstu árin. Við sjáum fram á framkvæmdir í mörg ár á þessum reit.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara yfir það hvað ber að gera við þau gömlu hús sem þarna eru. Núna er tækifæri til að staldra við og hugsa þetta upp á nýtt, hafa sjálfstæða skoðun á því hvernig best sé að gera þetta út frá starfsfólki, sjúklingum og öllum þeim rökum sem tiltekin eru í þingsályktunartillögunni sem hér er lögð fram. Það er kominn tími til að við viðurkennum að við höfum svolítið flotið með kerfishugsuninni í þessu máli. Það eru eiginlega engin rök eftir sem mæla með því, ef þau voru einhvern tíma til, að þessi framkvæmd verði áfram þar sem hún er í dag. Setjum nú aðra hagsmuni í forgang, hagsmuni sjúklinga, starfsfólks og framtíð þjóðarinnar varðandi þjóðarsjúkrahúsið. Skoðum þetta af fullri alvöru því að enn er tækifæri til þess.

Að sjálfsögðu vitum við öll að þetta tekur allt tíma en það þarf ekki að taka lengri tíma að hugsa málið út frá skynsemi og upp á nýtt.