149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:37]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda fyrir mjög mikilvæga umræðu og ráðherra fyrir að vera til svara hér í dag. Þetta er ótrúlega stórt og mikilvægt mál og ég hef oft horft til Bandaríkjanna þegar maður er að pæla í lýðheilsu og faraldsfræði og öðru og hvernig þróunin verður á Íslandi innan einhverra ára. Það er svo víða sem við virðumst fylgja Bandaríkjamönnum eftir í þróun.

Í Bandaríkjunum dóu árið 1999 um 18.000 manns af völdum lyfja. Í fyrra, 2017, voru það 72.000. Fjöldinn fjórfaldast á 18 árum. Sama þróun virðist vera uppi á borðum hér á Íslandi og núna allra síðustu árin, síðustu fjögur ár, virðist sprengjan vera í þessum ópíóíðum. Þar er gríðarleg sprengja eins og maður getur séð á þessu línuriti hér, það er bláa línan. Það er alveg lygilegt að horfa á tölurnar. Það sem maður óttast er að enn verði þróunin sú sama, að við munum fylgja Bandaríkjamönnum eftir í þróun vegna þess að þetta er gríðarlega stórt vandamál og í Bandaríkjunum er þetta sannkallaður faraldur. Ef við lítum á tölfræðina fylgjum við svolítið sama farvegi.

Ég er hins vegar mjög ánægður með þau svör sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan varðandi það hvað ríkisvaldið og stjórnvöld eru að reyna að gera í þessum málum. Það er greinilega margþætt aðgerðaáætlun í gangi og forvarnir hljóta að vera gríðarlega mikilvægar í þessu samhengi. Þá vil ég einmitt koma forvörnum og slíkum þáttum betur í grunnskóla og framhaldsskóla í landinu, ná betri tengingu við þá, og enn og aftur er mikilvægt að hafa þessa starfsemi úti á landi, (Forseti hringir.) samanber SÁÁ á Akureyri til að sinna landsbyggðinni líka og við megum ekki gleyma því í þessu ferli.