149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[16:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vill að löggjafinn segi skýrt hvað hann vill. Því get ég verið hjartanlega sammála. Það var nefnilega þannig að 7. júní þessa árs birtist nefndarálit með breytingartillögu um téð frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur frá allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem m.a. sat fulltrúi Viðreisnar. Þar fjölluðum við um tvöfalda lögheimilaskráningu barna.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að dómsmálaráðuneytið er með til skoðunar búsetu barna og fyrirhugað er að leggja fram frumvarp til breytinga á ýmsum lögum.“

Svo klykkjum við út í nefndinni með þeim orðum, með leyfi:

„Nefndin tekur undir mikilvægi þess að þetta fyrirkomulag sé til skoðunar og leggur áherslu á að ráðuneytið flýti þeirri vinnu eins og kostur er.“

Hér sagði löggjafinn nokkuð skýrt hvað hann vildi. Nú er liðið eitt sumarhlé og ég vil bara spyrja: Hversu mikið átti ráðuneytið að flýta vinnunni ef við erum strax á fyrstu vikum, eftir að fulltrúi Viðreisnar og við hin samþykktum þetta álit, farin að leggja fram sjálfstæð frumvörp um það sem við hvöttum ráðuneytið til að gera hér fyrir smástund?