149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð. Þar var margt athyglisvert sem kom fram. Ég held að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að enginn sá það fyrir þegar þessi samningur var gerður að Bretland ætti eftir að samþykkja að ganga úr Evrópusambandinu. Það sá enginn fyrir.

Það breytir samningnum verulega og þess vegna er mjög nauðsynlegt að taka hann upp, segja honum upp og semja upp á nýtt, fyrst og fremst vegna þeirra breyttu aðstæðna sem hafa skapast en auk þess lagði ég áherslu á fleiri þætti sem ég og hv. þingmaður erum sammála um. Samningurinn er ójafn og er því miður ekki nægilega vel gerður með hagsmuni Íslands í huga.

Ég vildi spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann kom aðeins inn á mótvægisaðgerðir. Ég hef spurt um þær í þinginu en ekki fengið svör við því hvaða mótvægisaðgerðir þetta eru. Hv. þingmaður nefnir mótvægisaðgerðir í tengslum við tíu ára búvörusamninginn, gott og vel, en hæstv. landbúnaðarráðherra hefur boðað fleiri mótvægisaðgerðir úr þessum ræðustól og ég ekki fengið svör við því hvaða aðgerðir það eru. Ef hv. þingmaður veit það væri gott að fá það upplýst.