149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

fjöldi háskólamenntaðra.

[10:57]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn minni er beint til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Nú er ljóst að fjöldi háskólamenntaðra á Íslandi hefur þrefaldast frá aldamótum en á sama tíma hefur fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar dvínað hratt. Í dag er hann með því allra minnsta í Evrópu. Háskólamenntuðum fjölgar en sérhæfðum störfum í takt við þá þróun fjölgar ekki og eru háskólamenntaðir nú næstfjölmennasti hópur atvinnulausra sé hann flokkaður eftir menntun.

Á sama tíma og við sjáum að í ákveðnum greinum er sýnilegur skortur á nemendum, svo sem í iðn- og raungreinum, virðist, og það er ekki mjög þægilegt fyrir mig persónulega að viðurkenna, umframframboð vera á útskrifuðum viðskipta- og lögfræðingum. Það er því ljóst að framboð háskólamenntaðra og eftirspurn atvinnulífsins er ekki í jafnvægi og þróunin bendir heldur ekki til þess að það muni lagast af sjálfu sér.

Spurning mín er því þessi: Sér ráðuneytið blikur á lofti í þessum efnum? Hefur ráðuneytið skoðað eða ætlar að skoða aðgerðir eða koma upp áætlun til að takast á við þessa þróun? Þurfum við ekki að huga að aðgerðum til að jafna betur framboð háskólamenntaðra og eftirspurn atvinnulífsins?