149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka svarið, þigg það með þökkum og geng út frá því að við eigum eftir að eiga innihaldsríkar samræður um málið. Mig langar þá í seinni umferð aðeins að ræða um tímabundnar heimildir eða öllu heldur skort á orðræðu um tímabundnar heimildir. Í greinargerð með frumvarpinu er engin viðurkenning á því að um sé að ræða tímabundnar eða afturkallanlegar heimildir. Ég set fram einfalda spurningu: Er ráðherra mér sammála um það að þegar um er að ræða nýtingu á náttúruauðlegð sé eðlilegt að þegar ekki eru tímamörk — og andstæða þess er þá að engin tímabundin krafa sé sett á, þetta sé ótímabundin nýting — sé gjaldtakan fyrir nýtingu auðlindarinnar hærri en ef um tímabundna auðlind væri að ræða?

Og jafnframt, svo ég endurtaki mig frá því áðan: Var rætt við vinnslu þessa frumvarps að setja einhver ákvæði um tímabundna nýtingu inn í það?