149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:56]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að þessi tilfærsla til ríkisskattstjóra er líklega til þess fallin að draga úr ákveðnum tegundum frávika. Það er svo sem vel þekkt að þegar fólk vinnur skattskýrslur eru þar alltaf ákveðnir liðir þar sem hægt er að skrásetja hluti á einn eða annan hátt og hvort tveggja er jafn rétt út frá einhverjum hugmyndum. Auðvitað fer fólk þá að hnika þeim til. Þegar við erum að tala um einstaklinga eru þetta mjög takmarkaðir möguleikar en þegar við erum að tala um heilu rekstrarsamstæðurnar er ekki erfitt að setja upp excel-skjal þar sem fólk hnikar hlutum til innan samstæðunnar með það að markmiði að lágmarka svona gjöld.

Þó að ég sé mjög hrifinn af því í grundvallaratriðum að aðskilja veiðar og vinnslu að þessu leytinu til og láta þetta allt saman snúast um veiðarnar er það vandamál enn til staðar að við erum að tala um mjög stór lóðrétt samþætt fyrirtæki sem eru með mjög stórar rekstrareiningar og mjög þétt setnar rekstrareiningar sem er auðvelt að færa hluti til innan. Þetta er svo sem ekki séríslenskt fyrirbæri, þetta er stundað úti um allan heim.

Við getum alveg rætt saman einhvern tímann um tvöföldu írsku leiðina sem er ein helsta bókhaldsbrella heimsins, algjörlega fullkomlega löglegt eins og þetta allt saman er, þetta eru ekki skattalagabrot en samt leið til að lágmarka skatta. Þetta er oft kallað skattahagræðing.

Þarna kemur hv. þingmaður einmitt að vissu leyti inn á mína stærstu gagnrýni sem ég kom ekki að í ræðu minni um þetta sem er að þetta frumvarp gerir ekki neitt í rauninni til að laga stöðu lítilla fyrirtækja. Núverandi kerfi er sett upp í þeim tilgangi að hygla stórum fyrirtækjum og eigendum þeirra og það virðist ekki vera neinn annar tilgangur með því. Lítil fyrirtæki koma illa út úr þessu. Það sem ég hefði haldið er að þegar verið er að setja nýjar reglur sem færa vinnsluna út úr þessu reikningsdæmi ætti að vera einhvers konar aðlögun til að þessi (Forseti hringir.) lóðrétta samþætting hætti að vera jafn mikill bónus og hún er. Það eru u.þ.b. sex til átta tegundir fyrirtækja, ég get alveg flokkað þær niður seinna, en það eru ekki nema tvær tegundir sem græða raunverulega á þessu kerfi.