149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

flugvellir og flugvallaþjónusta.

[13:50]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að biðja um tómstundaaðstöðu fyrir atvinnuflugmenn. Málið er grafalvarlegt. Það er svo alvarlegt að IFALPA, alþjóðasamtök flugmanna, sáu ástæðu til þess 19. september sl. að gefa út „service bulletin“, öryggistilmæli til þeirra sem nota Keflavíkurflugvöll, í kjölfar aðstæðna sem sköpuðust þremur dögum fyrr, þann 16. Í niðurlagi tilmælanna er þess getið að takmörkuð flughlöð á varaflugvöllum okkar séu orðin raunveruleg hætta og þeim tilmælum beint til flugstjóra millilandaflugvéla að íhuga vel hvort þeir eigi að nota þá flugvelli yfirleitt og í það minnsta að bera verulegt aukaeldsneyti til að geta brugðist við.

Það er rétt sem kemur fram hjá hæstv. samgönguráðherra að framlögin hafa verið aukin, en þau eru ekki í neinu samræmi við það sem þarf. Hér er talað um að að lágmarki þurfi 700 milljónir á ári til að viðhalda núverandi ástandi og verðmæti mannvirkja sem á þeim flugvöllum eru. (Forseti hringir.) Til að bæta um betur þurfum við a.m.k. 1.250 milljónir sem eru þó ekki nóg til að bæta aðstöðuna.