149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra kærlega fyrir þetta svar. Það er nú svo að stjórnsýslulagahjarta mínu blæðir mjög í þessu máli og tek ég þar undir með hæstv. ráðherra, þetta er mikið vandræðamál. Til dæmis er varðar frestun réttaráhrifa sem er mikið áhugamál mitt, vegna þess að það er ekki rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að því hafi verið hafnað heldur vísaði úrskurðarnefndin þeirri beiðni einfaldlega frá og sagði: Ráðherra verður að taka á því. Með þeim orðum að ef Matvælastofnun stöðvaði starfsemina væri hægt að kæra þá aðgerð og ráðherra ætti þá að fresta réttaráhrifum aðgerðarinnar.

Þess vegna hlýt ég að spyrja núna þegar á að fara í almenna aðgerð eins og lagasetning er, sem er svona víðtæk, sem á að keyra í gegnum þingið án yfirvegunar, án þess að þingmenn fái að rannsaka málið almennilega, án þess að við fáum að kynna okkur það eða (Forseti hringir.) kalla til sérfræðinga: Hvers vegna er þá ekki bara farið í þetta?

Ráðherra sagði áðan að Matvælastofnun væri að fara að stöðva starfsemina. Hvers vegna er þá ekki farið í það hreinlega að fresta réttaráhrifum þessara aðgerða (Forseti hringir.) til þess að við þurfum ekki að fara í almenna lagasetningu sem er (Forseti hringir.) óafturkræf?