149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og er með nokkrar spurningar.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að ráðherra væri lýðræðislega kjörinn en úrskurðarnefndin ekki. Má af þessum orðum skilja að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir efist um umboð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál til athafna? Er eitthvað verið að efast um umboð nefndarinnar og hvað henni tilheyrir?

Þá vil ég líka spyrja hv. þingmann sem jafnframt er formaður atvinnuveganefndar hvort hún ætli að verða við beiðni um að kalla eftir umsögn umhverfis- og samgöngunefndar vegna þessa máls, enda um að ræða stórt og mikilvægt umhverfismál að auki.

Það er alveg rétt að löggjöf á að vera almenn eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði. Þess vegna á einmitt ekki að bregðast við með löggjöf þegar á reynir hjá einstaka aðilum eða fyrirtækjum. Það er það sem ég er að tala um og hef verið að tala um í allan dag. Löggjöf á að vera almenn.

En hvaða skilyrði ætlar ráðherrann t.d. að setja? Það er talað um ákveðin skilyrði í 1. gr. frumvarpsins. Við skulum ekki gleyma því að umrætt ákvæði varðar það þegar eftirlitsaðilar, úrskurðarnefndir, þar til bær stjórnvöld, fella úr gildi leyfi vegna þess að eitthvað hefur komið upp á, eitthvað er í ólagi. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé bara allt í lagi að (Forseti hringir.) þessi heimild sé alltaf til staðar til þess að horfa fram hjá því að það hafi þurft að fella starfs- og rekstrarleyfi úr gildi.